Þú ert hér: Verkefni um víða veröld / Sjálfboðavinna / Ameríka / Galápagos
10.12.2019 : 1:01 : +0000

 

 

 

Sjálfboðavinna Galápagos eyjum

Ef á að fara til Ecuador þá er Galápagos eyjaklasinn bara það sem verður líka að skoða. Eyjarnar eru allar friðlýstar sem þjóðgarður nema 3% lands. Loðselir, hákarlar, sundeðlur, bláfættir fuglar af súluætt, mörgæsir og risaskjaldbökur eru aðeins brot af öllu því undraverða sem þar ber fyrir augu. Galápagos eyjarnar eru nefndar eftir risastórri skjaldbökutegund, sem lifir á eyjunum og er með skjöld í laginu eins og hnakkur. Spænska merking orðsins Galápagos er hnakkur. Eyjarnar eru 13 stærri eyjar, 6 minni og 42 aðrar, sem stundum eru ekki stærri en stór steinn. Til að komast til Galápagos verður að fljúga frá Quito eða Guayaquil til Baltra flugvallar á eyjunni San Cristóbal.

 

Galápagos-eyjarnar rísa úr hafi í næstum 1000 km fjarlægð vestur frá Ecuador. Eyjarnar, sem hýsa svo fjölskrúðugt gróður og dýralíf voru lengi algjörlega ósnortnar af mönnum. Þótt að miðbaugur liggi um eyjarnar rennur kaldur Humbolt- straumurinn þangað úr Suður-Íshafi og mætir hlýrri hafstraumum, sem koma undan Perú og Panama. Veðurfar er því breytilegt. Stundum er skýjað og svalur úði og stundum sól og hiti eins og í öðrum hitabeltislöndum. Gróðurfar er líka mjög breytilegt eftir hæð frá sjávarmáli. Við ströndina er þurrt og gróður gisinn, en þegar ofar dregur tekur hvert gróðurbeltið við af öðru eftir þvi sem úrkoman eykst, en um leið er ekki eins heitt. Loftslag er einnig breytilegt frá einni ey til annarrar, en stríðir hafstraumar eru á milli eyjanna og því hefur gróðurfar og dýralíf þróast hvert á sinn hátt á eyjunum. Margar af þessum gróður og dýrategundum eru einlendar, en það þýðir að þær finnast aðeins þarna.

 

Dýrin á eyjunum eru ótrúlega spök og skýrist það af fjarveru manna um aldir. Fyrst er getið um mannaferðir á eyjunum árið 1535 þegar biskup frá Panama, Faðir Tomás de Berlanga varð skipreika á siglingu til Perú. Fundu skipsmenn rækilega fyrir miklum vatnsskorti þar, en fáar vatnslindir finnast á eyjunum. Spánverjar kölluðu eyjarnar „Islas Encantadas“ eða “Eyjar í álögum”.  Eyjarnar  voru áfram óbyggðar og einskis manns land, en sæfarar og sjóræningjar komu þar stundum við og þá ekki síst til að ná sér í vistir. Risaskjaldbökur voru teknar og geymdar um borð lifandi og svo slátrað þegar þörf var á því þær geta lifað lengi án matar. Þannig fékkst ferskt kjöt þótt dvalið væri langtímum á sjó.

 

Ecuador gerði tilkall til eyjanna árið 1832. Þar á eftir eða yfir 127 ára tímabil notuðu stjórnvöld eyjarnar sem fanganýlendu eins og oft hefur gerst með einangraðri staði. Árið 1959 var síðasta fangelsinu lokað. Fangelsið “The Wall of Tears” í Puerto Villamil, sem var lokað eftir fangauppreisn 1958 er minnisvarði um grimmdina sem fangar máttu þola.

 

Af öllum þeim vísindamönnum og þeir eru margir, sem hafa heimsótt eyjarnar er Charles Darwin sá frægasti og hefur haft mest áhrif. Þessi heimsþekkti breski náttúrufræðingur ferðaðist um eyjarnar árið 1835 og gerði rannsóknir um 5 vikna skeið. Dvöl hans varð ein af kveikjunum að þróunarkenningu hans um “Uppruna tegundanna” sem var gefin út 1859.

 

Nokkur byggð hefur myndast á stærstu eyjunum síðustu 150 ár. Íbúar eru nú um 25 þúsund og framfleyta sér aðallega á ferðaþjónustu, fiskveiðum og landbúnaði. San Cristobel er þéttbýlust eyjanna. Þegar lent er á flugvellinum blasa við eldbrunnin, dökkgrá og gróðursnauð hraun ekki ósvipað og víða sést á Íslandi. Íbúarnir eru vinsamlegir og fólki finnst það öruggt því strangt eftirlit er með hverjir komast til eyjanna.

 

Taktu þátt í spennandi sjálfboðaverkefnum: Upplifðu Galápagos eða Sjálfboðavinna Galápagos.

 

 

Senda fyrirspurn