Þú ert hér: Verkefni um víða veröld / Tungumálanám / Ítalska / Flórens
28.1.2020 : 21:18 : +0000

Reynslusaga...

"Það hefur gengið bara ótrúlega vel. Skólinn er æðislegur, við erum 4 í hóp, sem er rosalega þægilegt, þannig að allir fá mjög persónulega aðstoð. Skólinn býður svo upp á auka tíma utan almenns skólatíma sem og ýmsar ferðir innanbæjar sem dæmi: heimsækja ísbúðir, eiga sameiginlega kvöldstund í almenningsgarði og fleira. Íbúðin sem ég fékk er líka frábær, mjög rúmgóð og rétt rúmar 10 mínútur að labba í miðbæinn... Sjá nánar um ferðasögu Davíðs á facebook

Ítölskunám í Flórens

Við komuna til Flórens spyr maður sig hvort þetta sé, já, alvöru borg eða stórkostlegt safn? En jú, svarið er já við báðum spurningunum. Flórens er lítil, heillandi, borg og með helstu ferðamannastaði sína á sama svæðinu.

 

Í Flórens er margt að sjá og upplifa af stórkostlegum listaverkum fyrri tíma í þessari einstaklega fallegu borg. Það er vissulega gott ráð að vera skipulagður til að komast yfir og sjá sem mest og um leið að njóta til hins ítrasta notalegs andrúmsloftsins, sem þarna svífur yfir.

 

Á miðöldum og á endurreisnartímabilinu var Flórens menningarmiðstöð heimsins þar sem listamenn, arkitektar, rithöfundar og fræðimenn gerðu hluti sem varla ef þá nokkurn tíma hefur verið skákað. Vitnisburð um þessi afrek er enn alls staðar að sjá í Flórens, í höllum hennar, torgum, kirkjum, minnismerkjum og söfnum. Í dag er Flórens þó líka athafnasöm nútímaborg verslunar og þjónustu með um 500.000 íbúa. En þrátt fyrir það er ein helsta ástæða þess að fólk sækir borgina heim í svo miklum mæli ofgnótt listar og menningar frá þessum tíma. Af öllum helstu listaverkum heims er um 60% að finna á Ítalíu og meira en helmingur af þeim er í Flórens samkvæmt mati UNESCO.

 

Flórens er því veisluborð þeirra sem vilja upplifa hreint ótrúlega flóru listar og menningar – Heill sagnaheimur þar sem þú gleymir þér innan um mörg stórkostlegustu minnismerki sem samspil hugar og handar hefur skapað.

 

Nánar um skólann & námið...