Þú ert hér: Verkefni um víða veröld / Sjálfboðavinna / Afríka / Kruger to Cape / Ferðasögur
22.11.2019 : 8:49 : +0000

Skemmtilegasti, reynsluríkasti og mest fræðandi tími í senn...

Þann 2.Október 2010 lagði ég af stað í langferð, alla leið til Suður Afríku. Þetta var mesta vegalengd og lengsti tími sem ég hef eytt í öðru landi en án efa sá skemmtilegasti, reynsluríkasti og mest fræðandi í senn. Ég fór í frábæra safariferð og upplifði dýralíf hinnar viltu Afríku í Kruger þjóðgarðinum. Svo tóku við erfiðar en mjög skemmtilegar, þroskandi og fræðandi vikur við kennslu í Swasilandi. Þrátt fyrir að hafa aldrei gert neitt þessu líkt áður náði ég, með góðum stuðningi starfsfólks og annarra sjálfboðaliða, að vinna gott verk sem ég er ánægður með. Ég fékk svo að kynnast fátæktinni og fegurðinni í Mósambík. Þrátt fyrir lélegar aðstæður og bág kjör virðist fólk lifa í sátt á einum af fallegustu stöðum sem ég hef séð. Svo ferðaðist ég frá Swasilandi niður til Höfðaborgar í Suður Afríku og sá þar aðeins lítið brot af því sem þetta merkilega land hefur uppá að bjóða. Dýralífið, landslagið, strendurnar og skógarnir voru hreint út sagt frábær. Í Höfðaborg kynntist ég svo Suður Afríku og hennar sögu og menningu enn betur og lærði að meta hana enn ferkar. Nelson Mandela, Robben Island, Table Mountain, V&A Waterfront, Cape Point, Stellenbosch. Allt eru þetta mikilvægir þættir í því að ég finn mig knúinn til að fara þangað aftur og mæli eindregið með því að aðrir geri slíkt hið sama. Þrátt fyrir að hafa upplifað fegurð og töfra Suður Afríku fór fátæktin samt aldrei framhjá manni. Hvar sem ég fór þó upplifði ég vinsemd og þakklæti þeirra sem ég hitti og það er það sem situr svo fast í manni og gerir ferð þessa ógleymanlega.

                                                                           Jón Vigfússon, 2011

Gunnhildur í ævintýraleit...blogg

...Dagurinn í dag var ótrúlegur.

Byrjuðum á kynningarnámskeiði um landið og menninguna og upplýsingarnar sem við fengum voru svo ótrúlegar að maður á erfitt með að trúa þeim. Um þriðjungur þjóðarinnar er HIV smitaður, 49% óléttra kvenna sem láta athuga sig eru HIV jákvæðar, meðal aldurinn hérna er í kringum 50 ár, HIV hefur haft áhrif á líf flestra ef ekki allra barnanna sem við vinnum með og mörg þeirra eru smituð sjálf, engin sjálfboðaliði hefur smitast á þessum 9 árum sem starfsemin hefur verið í gangi. Þetta er svona hluti af þeim upplýsingum sem við fengum í dag um landið og ástand þess.

Einnig fengum við að vita fullt um menninguna og hvernig nútíminn og fortíðin blandast saman. Fjölkvænni er leyfilegt hér og áður fyrr sást það á því hversu margir kofar voru í kringum kofa húsbóndans hversu margar konur hann átti. Hér eru fullt af allskonar hefðum og reglum tengdar konunginum, til dæmis er haldin hátíð einu sinni á ári þar sem þær ógiftu konur sem vilja (áður fyrr voru þetta allt hreinar meyjar en það er ekki hægt að staðfesta það lengur vegna mannréttinda) koma og dansa fyrir konunginn og þar má hann velja sér eina þeirra sem eiginkonu sína. Hann hefur ekki valið sér eiginkonu í fjögur eða fimm ár núna en á líka 13 konur nú þegar, og það er víst mjög dýrt, haha. Konungurinn er mikils metinn hérna og hefur miklu meira vald heldur en konungsfólkið í Evrópu, eða bara forsetinn okkar. Hér hefur konungurinn loka orðið í öllu og er þeirra helsti stjórnandi og er í raun pólitískur og sér um að stjórna landinu...

 

...Fyrsta daginn fylgdumst við bara með kennslunni, sem er mest söngur á ensku og fórum svo út og lékum við krakkanna. Og vá þau vildu öll fá að halda í höndina á okkur og öll láta halda á sér og fá að snerta á mér hárið og húðina. Guð þau eru alveg sætustu! Vildu síðan öll fá að prófa gleraugun mín og láta taka mynd af sér. Þriðjudagurinn og fimmtudagurinn voru mjög svipaðir á leikskólanum. Byrjum daginn á að kenna þeim fram að morgunmat og förum svo út með þeim að leika. Þau virðast alveg átta sig á því að Loic sé betra leiktré og klifra og hanga í honum eins og apakettir en eru miklu rólegri hjá mér J Kennslan er mest bara söngur á ensku og erum að kenna þeim formin, litina og til hvers við notum til dæmis eyrun og augun...

 

...Á fimmtudaginn vorum við komin út af tjaldsvæðinu rétt rúmlega hálf 6 þegar garðurinn opnar og fórum að leita af dýrum. Sáum strax antilópur, eins og alla daganna, það er mest af þeim í garðinum og þær eru bókstaflega allsstaðar. Undanfarna daga hefur verið mikil rigning á þessu svæði og nokkrum vikum áður en við komum voru flóð þarna. Þess vegna er mikill gróður og frekar erfitt að sjá dýrin því grasið er svo hátt og auðvelt að fela sig í trjánum. Og vegna hitans þá vilja þau helst vera í skugga svo við áttum oft í erfiðleikum með að koma auga á þau en gaurarnir sem voru með okkur í ferðinni voru æði og áttu rosa auðvelt með að sjá hluti sem við hefðum aldrei séð. En, kosturinn við hitan var líka sá að dýrin þurftu að koma niður að ánum til að drekka. Við sáum fullt af fílum á leiðinni að fá sér að drekka með svo sæta litla unga með sér. Þeir voru að fara yfir göturnar þar sem við vorum að keyra og það er alveg ótrúlegt að sjá þessar risa skepnur! Sáum einnig gíraffa, flóðhesta og apa. Guð hvað aparnir eru skemmtilegir. Sáum þá stela mat af fólki og sátu svo rosa ánægðir með sér upp í tréi og horfðu á fólkið meðan þeir átu matinn þeirra. Við keyrðum um garðinn og sáum mikið af því svæðinu í kringum tjaldsvæðið okkar...

 

...Síðasta daginn okkar í garðinum lögðum við af stað úr garðinum hálf sex. Eyddum deginum í að leita af dýrum. Var að tala um það hvað mig langaði geðveikt að sjá hlébarða en það væri frekar ólíklegt þar sem það eru ekki svo margar í garðinum. Var ekki búin að ljúka setningunni þegar Psycho for að hraða á sér því hann hafði séð hlébarða. Sáum tvo saman sem voru líklegast að fara að veiða. Þeir fóru samt svo hratt að við náðum valla myndum af þeim því þeir voru bara horfnir áður en við vissum af. Ótrúlega gaman að hafa fengið að sjá þá!...

 

Lestu allt um ævintýri Gunnhildar í blogginu hennar hér.