Þú ert hér: Verkefni um víða veröld / Work&Travel / Evrópa / Malta
23.2.2018 : 22:39 : +0000

Held að þetta sé góð lífsreynsla fyrir alla!

"Það gengur rosa vel, erum 6 stelpur hér saman á hotelinu og 6 strákar og allir frábærir, ótrúlega gaman hér og búið að vera geggjað veður, engin heimþrá komin finnst þetta bara líða svo hratt áður en maður veit af verður maður komin aftur heim. Vinnan er fín, bara soldið lítið að gera í augnablikinu en í sumar verð ég að vinna á barnum við sundlaugina held að það verði bara gaman. Búin að heyra að það sé erfitt en að liðsandinn þar sé svo góður og eftir hverja vakt næstum því sé farið út að skemmta sér. Byrja þar í byrjun apríl þannig það er stutt í það. En ég mæli svo sannarlega með þessu held að þetta sé góð lífsreynsla fyrir alla." - Ester

Ester starfar á hóteli á Möltu

Work & Travel Malta

Malta er sannkölluð paradís ferðamannsins þar sem hún er staðsett í hjarta Miðjarðarhafsins. Malta er eyjasklasi, sem samanstendur af sjö eyjum og eru aðeins þrjár þær stærstu byggðar, Malta, Gozo og Comino. Eyjarnar eru staðsettar sunnan við Ítalíu og norður af norðurströnd Afríku. Þær eru syðsta og sólríkasta ríki Evrópu. Landslagið er láglent, þurrt og grýtt og hamrabelti meðfram fjörðóttum ströndum. 

Vegna legu eyjanna voru þær hernaðarlega mikilvægar og guldu fyrir með heimsókn fjölda innrásaraðila. Föníkumenn, Karþagómenn, Grikkir, Rómverjar, Arabar, Normanar, Spánverjar, Ítalir og Frakkar og síðast Bretar ruddust inn hver á fætur öðrum í aldanna rás, tóku völdin og ríktu í mislangan tíma. Það fór ekki hjá því að allar þessar innrásarþjóðir settu sitt mark á eyjarnar og státa þær nú af 7000 ára gamalli sögu ríkri af ómetanlegri menningu og minjum. 

Árið 60 e.k. var Páll postuli skipreika á eyjunum á leið sinni til Rómar og var  bjargað af Möltubúum. Kannski bjargaði það líka kristninni en alla vega tókst Páli um leið að breiða út boðskap kristninnar á Möltu.

Í dag eru Maltverjar rómversk-kaþólskir og mjög trúhneigðir sem sést best á kirkjusókn ungra og aldinna í hinum mörgu, ægifögru kirkjum þeirra. 

Stórveldistími Möltu stóð frá árinu 1530 til 1798, þegar Mölturiddarar af reglu Jóhannesar, sem var stofnuð á krossferðartímabilinu réðu ríkjum á Möltu. Hin miklu mannvirki sem þeir reistu, s. s. varnarvirki, hallir og kirkjur vekja verðskuldaða undrun og athygli allra sem heimsækja landið. Í lok 18. aldar birtist svo sjálfur Napóleon Bonaparte og sölsaði eyjarnar undir sig, en gleði hans yfir herfanginu stóð stutt. Maltverjar báðu Breta um hjálp sem þeir fengu. Bretar urðu svo nýja herraþjóðin og ríktu á Möltu í 160 ár eða til ársins 1964 þegar Maltverjar fengu sjálfstæði. Þeir urðu svo fullvalda og sjálfstætt lýðveldi árið 1974. Vegna langrar veru Breta varð enska jafnt sem maltneska opinbert tungumál Möltu.

Sólin skín allan ársins hring á Möltu; veðráttan er hreint alveg yndisleg; sjórinn er hlýr og tær vegna legu eyjanna í miðju Miðjarðarhafi þar sem straumar halda sjónum hreinum og ferskum. En það er ekki bara sjórinn, sem er hlýr og bjartur. Fólkið er hæverskt, hjálpsamt, vingjarnlegt með skopskynið vel í lagi og það tekur svo sannarlega vel á móti þér.

Margt skemmtilegt er hægt að gera sér til afþreyingar á Möltu, til dæmis synda í tærum sjónum, stunda allskonar sjósport og siglingar, fara á heilsuræktarstöðvar, fara í lengri eða skemmri skoðunarferðir t.d. til Sikileyjar á Ítalíu, kíkja á fjörugt næturlífið, spila golf eða tennis, fara á hina ýmsu tónleika og listviðburði o.fl. ofl. ofl.

 

Við bjóðum upp á Work & Travel Malta allan ársins hring!