Þú ert hér: Verkefni um víða veröld / Sjálfboðavinna / Afríka / Zimbabwe / Um vinnuna
21.1.2020 : 9:47 : +0000

Vinnu- og frítími

Vinnutími: Mismunandi eftir verkefnum, en almennt um 8 klst. á dag.

Frítími: Yfirleitt tveir dagar í viku (helgar).

Fæði og uppihald: Innifalið eru þrjár máltíðir á dag.  

Húsnæði: Gist er í sjálfboðaliðahúsi í Antelope Park.  

Mynd frá Alexander Mána Kárasyni
Mynd frá Alexander Mána Kárasyni
Mynd frá Alexander Mána Kárasyni

Um vinnuna

Viltu ganga með ljónum? Nú er tækifæri! Markviss endurhæfing og verndun ljóna hófst árið 2006 eftir að rannsókn leiddi í ljós að villtum ljónum hefði fækkað um 80-90% á aðeins þrjátíu árum. Árið 1975 var áætlað að ljónastofninn í Afríku væri um 200.000 dýr, en árið 2002 var talið að aðeins 20-40.000 dýr væru eftir. Það er raunveruleg vá fyrir dyrum að ljónunum haldi enn áfram að fækka og að komandi kynslóðir sjái þau bara á myndum eða uppstoppuð á söfnum. Markmið þessa ljónaverkefnis er að snúa vörn í sókn og draga úr þessari fækkun og fjölga ljónum úti í náttúrunni. Aðferðafræðin er að ala upp og aðlaga ljónsunga að sínu náttúrulega villta umhverfi með aðstoð mannsins. Ljónsungarnir í þessu verkefni eru fæddir af ófrjálsum ljónynjum. Þess vegna er ekki hægt að sleppa mæðrunum því þær hafa aldrei lært að bjarga sér úti í náttúrunni. Því hafa þær ekki þá færni sem þarf til kenna ljónsungunum að verja sig og komast af á eigin spýtur. Þarna kemur maðurinn inn í myndina með vel skipulagt þjálfunarprógram. Lokaáfangi verkefnisins er svo að sleppa ungunum við ákveðinn aldur eftir endurhæfinguna út á verndað svæði þannig að þeir pari sig og eignist frjálsborin afkvæmi. Þeirra afkvæmi þekkja ekki manninn og þeim er hægt að sleppa alfrjálsum út á víðáttur Afríku.

Því skiptir miklu að ljónsungarnir læri að veiða og öðlist þá félagslegu færni sem þarf til að aðlagast villtri ljónahjörð og að lifa af úti í náttúrunni.  

Sem sjálfboðaliði gætir þú einnig verið að aðstoða í Zambezi og Viktoríafossa þjóðgörðunum að ýmsum umhverfis- og rannsóknaverkefnum s.s. kortlagningu tegunda og fjölda dýra í garðinum (bæði gras- og kjötæta), eða unnið að því að fjarlægja utanaðkomandi plöntur, viðhaldi á þjóðgarðinum, fjarlægja veiðigildrur, skiltagerð og hreinsun á rusli. Í Antelope Park gefst sjálfboðaliðum einnig tækifæri til að aðstoða við umönnun munaðarlausra fíla og fara á bak þeim og einnig á hestbak.

Einkar spennandi er líka kortlagning á fjölda fíla í Zambezi þjóðgarðinum, en eins og er liggja fyrir litlar upplýsingar um hvort fílum sé að fjölga eða fækka í garðinum.  Sjálfboðaliðar vinna því í að meta fjölda fíla, áhrif fílastofnsins á plöntulíf, aldur og kyn dýra í hjörðum, staðsetningu, o.s.frv. 

Ólöglegar veiðar
Erfiðleikar og fátækt í Zimbabwe hafa leitt til þess að veiðiþjófar ásælast mjög dýr í þjóðgörðunum vegna kjöts og skinna.  Afleiðingin er að villt dýralíf á mjög undir högg að sækja.  Þjóðgarðsverðir telja að veiðiþjófnaðir séu alvarleg ógn. Sjálfboðaliðar aðstoða þjóðgarðsverði við að meta áhrif veiðiþjófnaðar á dýralífið, hvar veiðiþjófar láta einna helst á sér kræla og hvar má einna helst finna veiðiþjófa í Zimbabwe. 

Ferðasögur

Um landið

Umönnun og kennsla í Zimbabwe...

Umönnun munaðarleysingja og kennsluverkefni í Victoria Falls.

Í þessu verkefni ertu virkur þátttakandi í því nauðsynlega uppbyggingarstarfi sem er þegar hafið eftir margra ára valdabaráttu og óstjórn í Zimbabwe. Íbúar Zimbabwe berjast við alvarlega efnahagskreppu, atvinnuleysi er mikið og hungurvofan vofir yfir. Eins og alltaf þar sem ófriður, óstjórn og fáfræði hefur ríkt þá eru það þeir sem minnst mega sín eða börnin, sem verða verst úti.

Árið 2007 stofnaði heimakona munaðarleysingjaheimili í Victoria Falls. Markmið hennar var að styðja og vernda börnin til betra lífs í Victoria Falls og nágrenni. Á þetta heimili eru allir boðnir velkomnir og sérstaklega þeir, sem þarfnast fjárhagslegs og sálfræðilegs stuðnings. Þörfin fyrir aðstoð er af mörgum ástæðum s.s vegna heimilisleysis, veikinda, fötlunar, kynferðisofbeldis, látinna foreldra og fátæktar.  HIV jákvæðra barna er sérstaklega hlúð að bæði hvað varðar að mennta þau og meðhöndla við sjúkdómnum. Börnin eru hvött til að taka þátt í og aðlagast samfélaginu og að gerast virkir þátttakendur svo stöðva megi þá miklu fordóma og almennan þekkingarskort, sem ríkir gagnvart þessum sjúkdómi.

Börnin eru á mismunandi aldri, allt frá því að vera ungabörn til 16 ára. Þú munt sem sjálfboðaliði heimsækja heimilið daglega og verja dýrmætum tíma með börnunum, m.a. veita þeim viðbótar kennslu, leika við ungabörnin og veita þeim athygli og ástúð sem öll börn þarfnast og eiga skilið. Þú munt hafa tækifæri til að fara út með börnunum og fara í leiki með þeim s.s. fótbolta, netboltaleiki eða aðra skemmtilega leiki sem stuðla að heilbrigði þeirra og lífsgleði. 

Menntun er lykillinn að betri framtíð og er mikil áhersla lögð á að hvetja börnin til að læra svo þau geti öðlast betra líf og afkomu til frambúðar.

Sem sjálfboðaliði í þessu verkefni munt þú auk starfsins á munaðarleysingjaheimilinu aðstoða við grunnskólann, Monde. Hann er rekinn af áhugasömum og ósérhlífnum heimamönnum, sem gera sitt besta til að mennta börnin. En skólinn er því miður með allt of fátt starfsfólk, kennslugögn eru af skornum skammti og lítið fjármagn er til umráða.  Þú munt hafa tækifæri til að veita ómetanlega aðstoð við að hjálpa kennurunum við kennsluna, koma með nýjar og ferskar hugmyndir, veita börnunum einstaklings athygli, hvatningu og hlýju og að skipuleggja með þeim skemmtilega leiki og íþróttir. 

Aðstoð þín er einnig kærkomin við mataröflun, en við munaðarleysingjaheimilið og skólann eru garðar þar sem grænmeti fyrir börnin er ræktað.

Nánari upplýsingar er hægt að fá hjá starfsmönnum Nínukots, með því að senda fyrirspurn eða hringja í síma 561 2700.

Um landið